Leikföngin eru okkar

 

Fór í borgarferð um helgina, stutta sem betur fer, en tilgangur ferðarinnar var keppnisferð frumburðarins. Börnin þrjú voru óvenju spennt yfir ferðinni og lá spenningur þeirra aðallega í fyrirhugaðri ferð fjölskyldunnar í risa leikfangaverslunina Leikföngin eru okkar (Toys’r us) Höfðu börnin nurlað saman fé og talið flöskur og nú átti sko heldur betur að versla. Sjálf verð ég að játa að það var ekki laust við að það þyrmdi yfir mig þegar ég kom inn í risavaxna búðina. Leikföng upp úr og niður úr. Úrvalið var endalaust og gylliboð um verðlækkanir héngu um alla búð. Sá yngsti, sem er forfallinn Cars aðdáandi, fór beint inn á einn ganginn benti á bílabraut og sagði ég ætla að fá þessa. Sem betur var innistæða í veski hans fyrir brautinni og gekk hann hróðugur með hana undir hendinni. Sá í miðið átti erfiðari dag enda greip um sig mikill valkvíði. Með vaxandi örvæntingu úr andlitinu gekk hann frá einum gangi yfir í annan. Úrvalið var endalaust. Hann stoppaði loks við þyrlu eina flotta. Þar sem við stóðum og dáðumst að þyrlunni stökk að okkur kona. –Ætlið þið að kaupa hana? Spurði hún. –Ha, nei, ég held ekki, svaraði sonur minn og á einu augabragði var þyrlan horfin. Áfram hélt sonurinn og fann loksins aðra þyrlu sem hann tók undir arminn og sagði; -Svona, ég ætla bara að fá þessa. Við tók löng leið að kassanum og á þeirri leið sagði hann allt í einu, -Eða nei, ég ætla að fá þessa hér, og benti á lögregluþyrluna góðu sem komin var á annan stað í búðinni. Hann hafði því allan tímann haft hug á þyrlunni góðu en þorði ekki að segja það við konuna sem hrifsaði hana svo til úr fangi hans. Við hjónin litum í kringum okkur og sáum út um allt æsta foreldra og öskrandi börn. Allir voru klyfjaðir af leikföngum. Þeir æstustu hlupu á milli tilboðsrekkanna og sópuðu hugsunarlaust upp varningnum. Nú átti sko að græða og það feitt. Skömmustuleg læddumst við hins vegar út með glaða drengi sem hvor um sig báru leikfangapakka á stærð við þá sjálfa. Okkur var litið á pólverjana sem norpuðu úti í kuldanum við vinnu sína. Hvað ætli þeir haldi um okkur kaupglaða íslendingana erum við endanlega búin að missa vitið?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband