-Ertu búinn að spyrja guð?

-Mamma ég bara finn ekki heimanámið mitt, sagði miðsonurinn miður sín í vikunni. Sá yngsti sat við eldhúsborðið og var að lesa heima. Leit hann upp á bróðir sinn og spurði; -Ertu búinn að spyrja guð? Það hjálpar.

Síðan leit sá stutti aftur niður á bókina sína og hélt áfram að stauta.

La la, ló ló, ró ró, ás ás heyrðist tautað. Minnug þess að hafa séð þann stutta biðja bænirnar sínar áður en hann gekk yfir götu fór ég að ræða þetta aðeins við hann. -Talar þú stundum við guð?, spurði ég. -Thjá, oft og mikið, var svarið. -Og hjálpar það?, spurði ég á móti. -Já, það hjálpar mér mjög mikið. Ég veit ekki um ykkur en það hjálpar mér, svaraði hann ákveðinn og hélt áfram að stauta. Forvitni mín var vakin og ég hélt áfram. -Og hvernig talar þú við hann?, spurði ég og var orðin áhugasöm. Sá stutti leit upp út bókinni, spennti greipar og horfði upp í loft. -Kæri guð, viltu hjálpa mér með heimanámið, bara svona sagði hann og hélt áfram orðinn hálf hissa á þessum spurningum móður sinnar. Leit síðan upp aftur og sagði; -Þú ættir bara að prófa að tala við hann sjálf. Þá var kallað innan úr stofu. -Mamma ég fann heimanámið, það var bara hér allan tímann, kallaði miðsonurinn. Hissa horfði ég á þann yngri og sat eftir með spurninguna um hvar ég hefði farið út af sporinu og gleymt guði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Já það getur verið gott að hafa Guð sér til hjálpar. Hér á bæ er oft rætt um hann og ef erfiðlega gengur að sofna vegna ótta við skuggaverur í myrkrinu þá er Guð alltaf til staðar. Ef það er ekki nóg þá er Frosti afi honum til hjálpar því hann er hjá Guði.

Rúnar Birgir Gíslason, 24.10.2007 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband