26.4.2007 | 10:28
Ein lítil dæmisaga
Einu sinni var félag sem hélt að það væri voða stórt og valdamikið. Innan þess voru litlir drengir sem þráðu fátt heitar en að vera aðal. Hins vegar leit allt út fyrir að þeim yrði ekki að ósk sinni því þeir höfðu rifist og slegist við aðal þegar hópurinn fór út í snjóslag. Drengurinn, sem lengst hafði gengið, grét og barmaði sér enda ljóst að eftir þetta framferði yrði hann aldrei aðal, hann yrði ekki einu sinni smá merkilegur. Fram liðu stundir og um tíma létu litlu drengirnir lítið fyrir sér fara og læddust með veggjum. Svo kom að því að aðal lenti í vandræðum og þurfti á þeim að halda á nýjan leik. Brutust þá út mikil fagnaðarlæti í herbúðum drengjanna sem ákváðu að nú skyldu þeir taka völdin, spila af klókindum og aldrei, aldrei aftur skyldu þeir voga sér að mótmæla aðal, hvað þá kasta í hann snjó. Héðan í frá myndu þeir bara kasta í þá sem aðal segði þeim að kasta í og í staðinn fengju þeir með tímanum örlítið af völdum sjálfir. Upp frá þessu skapaðist alsherjar upplausnar ástand í félaginu sem hélt þó áfram að halda að það væri stórt og valdamikið. Félagið minnkaði og minnkaði og drengirnir réðu meiru og meiru. Líkt og feitir púkar á fjósbita svifust þeir einskis til að ná sínu fram. Þeir fóru að ganga í fermingarfötunum sínum upp á dag hvern og það rigndi upp í nefið á þeim og þeir hættu að tala við gömlu félagana. Þeir töluðu bara hvor við annann. Síðan kom að því að kjósa átti um framtíð félgasins og þá kom, líkt og ætíð gerist, að skuldadögum. Drengirnir voru orðnir svo þyrstir í völd og frama að þeir heyrðu hvorki né sáu. Allir sem einhvern tíma hafa lesið einhver ævintýri vita hvernig fer fyrir drengjum eins og þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.