5.12.2007 | 16:26
Gul, græn, rauð og blá jól
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég meðvitaða ákvörðun um að breyta örlítið um lífsstíl og fara að hreyfa mig meira. Má reyndar ekki fara mér geyst í þeim efnum og ákvað því að notfæra mér það að ganga í og úr vinnu í hvert sinn sem ég þarf ekki á bílnum að halda vinnulega séð. Fæ út úr þessari hreyfingu 2 4 kílómetra á dag eftir fjölda ferða. Það er skemmst frá því að segja að þessi ákvörðun hefur reynst mér frábærlega. Það er fátt sem kemur manni betur inn í daginn en góður göngutúr í góðum félagsskap því öll fjölskyldan gengur nú saman út í daginn. Í morgun stóð ég mig að því þar sem ég gekk eftir Hólaveginum hér á Sauðárkróki að gleyma mér örlítið, já ég hreinlega breytist í lítið barn. Með tölvutöskuna á bakinu húfu og trefil hef ég trúlega, ekki síst smæðar minnar vegna, minnt meira á skólabarn en virðulegan ritstjóra ég hreinlega gleymdi mér í því að skoða hin ýmsu jólaljós og skreytingar sem fyrir augu mín báru á þessari leið. Gul, græn, rauð og blá, snjókallar jólasveinar og hreindýr allt uppljómað í anda jólanna. Brosið og jólaskapið sem þessi sjón kveikti hjá mér lifir inn í daginn og nær vonandi að smita út frá sér. Mig langar að skora á ykkur lesendur góðir að taka ykkur smá tíma núna á aðventunni og njóta þess að horfa í kringum ykkur, upplifa og meðtaka boðskap jólanna. Prófið að leggja bílnum einn dag, það er sé það mögulegt, og gangið til vinnu ykkar. Ég er sannfærð um að sá dagur á eftir að reynast besti dagur vikunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.