Fótanuddtækið sem breyttist í sófasett

Ég þurfti að fara til Reykjavíkur í liðinni viku og þegar ég var að renna út úr bænum ákvað ég að kíkja við í Góða hirðinum, sem er endurvinnslumarkaður Sorpu, og athuga hvort ég rækist nokkuð á fótanuddtæki í þeirri ágætu verslun. Já, ég sagði fótanuddtæki, en sökum gigtar á unga aldri á ég erfitt með að festa svefn sökum fótapirrings og ákvað því að prófa þetta tæki sem tröllreið íslensku þjóðinni fyrir áratug eða svo. Það er skemmst frá því að segja að ég fann ekkert fótanuddtæki í Góða hirðinum og auglýsi hér með eftir einu slíku. En þar sem ég hljóp í gegnum búðina varð mér allt í einu starsýnt á dýrgrip sem stóð þarna og beið mín. Ég stóð sem negld við gólfið og trúði ekki mínum eigin augum. Þarna hafði einhver hent yfir 50 ára gömlu íslensku sófasetti. Stráheilu, með útskornum fótum og fótstykki. Fallega löguðu og í réttum lit. Ég hef lengi horft álíka sófasett ágirndaraugum í antikverslunum en innistæða bankareiknings míns komandi ára hefur aldrei leyft mér þann munað að festa kaup á þessum dýrgrip drauma minna. En þarna beið það mín svo til ósnortið og það á einungis 40 þúsund krónur. Áköf skellti ég mér í sófann og stóð ekki upp fyrr en starfsmaður gekk frá. –ég ætla að fá þetta sófasett, sagði ég full ákafa. –Nú já, þá þarftu að fara fram að kassa og sækja miða og merkja það frátekið, svaraði starfsmaðurinn mér. –Nei, ef ég stend upp þá fær einhver annar settið, sagði ég í örvæntingu. Starfsmaðurinn sá aumur á mér og sótti miðann og glöð hringdi ég í pabba og útskýrði að ég væri að kaupa sófasett hvort hann gæti reddað því fyrir mig niður á flutningamiðstöð. Hann hélt það nú en ekki fyrr en daginn eftir þó. Ekki málið sagði ég. Ég borga það bara og síðan bíður það hér. Síðan dró ég fram kortin og ætlaði að borga djásnið. –Ertu tilbúin að labba með það út hér og nú?, spurði stelpa í Sorpubol. –Nei, ég hugsa að ég lofti því ekki, svaraði ég að bragði. –En pabbi kemur á morgun og sækir settið. –Nei þú mátt ekki borga settið fyrr en þú tekur það og þú mátt heldur ekki taka það frá án þess að borga það, sagði stelpan í Sorpubolnum og horfði ákveðin á mig. –Nú þá sting ég því bara í jeppann, svaraði ég og ætlaði ekki að missa af þessum kjarakaupum. Strákarnir í Góða hirðinum sáu aumur á mér og stungu sófanum inn í jeppann, já alla vega eins og hann komst þangað til allt stóð fast, þannig keyrðum við pabbi síðan um alla borg í leit að Flytjanda. Þegar þangað var komið stóð síðan djásnið fast Með örvæntingatár í augum horfði ég á bílinn og síðan sófann. Helv bíllinn fær þá bara að fjúka, hugsaði ég með mér um leið og sófinn hrökk laus. Þegar þarna var komið sögu hafði pabbi fengið nóg af veseninu í mér og hringdi á sendibíl til þess að sækja restina af settinu. Bílstjórinn skyldi lítið í því hvað ég væri að ferja þetta rusl milli landshluta. Sjálf keyrði ég alsæl út úr borginni án fótanuddtækis en með mynd af sófasettinu í símanum. Guði sé lof fyrir fólk sem vill fá allt nýtt og guði sé lof fyrir Góða hirðinn og Sorpu. Því það er jú þannig að það sem einhverjum öðrum finnst rusl finnst mér gull og öfugt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær þjónustulund hjá starfsmanni Góða Hirðisins og allt að því klassísk í borginni nú til dags.

 En til hamingju með settið góða!

Kv,

JGB

Jón Gunnar (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 11:25

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Til hamingju með settið :) ... og þolinmæðina við að komast í gegnum alla þessa "þjónustumúra" ...

Hólmgeir Karlsson, 6.9.2007 kl. 23:28

3 Smámynd: Guðný Jóhannesdóttir

Já en strákar settið var svo flott að ég hefði stokkið í gegnum mun hærri múra til þess að fá það með mér heim.

Síðan má ekki gleyma stráknum sem var að vinna í Góða Hirðinum og fannst að ég ætti að eignast þetta sófasett og hefði fært himinn og jörð til þess að hjálpa mér

Guðný Jóhannesdóttir, 7.9.2007 kl. 11:31

4 identicon

Þú ert dásamlega fyndin!

kv. frá Selfossi

Gyða Vestmann (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband