2.5.2007 | 16:50
Félag rauðhærðra kvenna
Mér finnst stundum eins og það hafi verið í gær að ég fékk litla gargandi rauðhærða stúlku í fangið. En núna á sunnudaginn verða 10 ár síðan. Þar sem ég starði hugfangin á það fallegasta barn sem ég hafði séð sagði fæðingarlæknirinn. Það er fædd stúlka, hún er rauðhærð, er þér alveg sama? Furðulostin starði ég á manninn. Þú hefur tekið eftir því hvernig ég lít út? Ég vissi ekki alveg hvort ég átti að verða móðguð eða bara brjáluð. Þá sagði hann mér að tveimur vikum áður hefði fæðst rauðhærður drengur og móðirin hefði helst viljað fá að skila honum. Já það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera rauðhærður og það hélt ég að hún dóttir mín ætti að fá að upplifa með sínum fyrsta andardrætti í þessum heimi. Nú 10 árum síðar eru uppi breyttir tímar. Rautt hár er í tísku og nýlega var stofnað félag rauðhærða kvenna. Hver veit nema við mægður eigum eftir að skrá okkur í þann ágæta félagskap enda rauðhærðar báðar og stoltar af því. En mér hefur oft verið hugsað til litla drengsins með fallega hárið. Vonandi verður einhverntíma stofnað félag fyrir hann líka. Jafnrétti fyrir alla - líka rauðhærða J
Athugasemdir
Mér hefur alltaf rauðhærðar stelpur vera svo flottar.
Skafti Elíasson, 5.5.2007 kl. 12:31
Ég skrifaði einu sinni bráðskemmtilega grein um háralit kvenna og þá eðliseiginleika sem eru eignaðar hverjum lit fyrir sig. Þetta var virkilega gaman og ég endaði greinina á að spyrja hvort það þjónaði nokkrum tilgangi að vera með slíkar vangaveltur nú til dags þegar hver kona skiptir um háralit nokkrum sinnum yfir ævina?
Steingerður Steinarsdóttir, 6.5.2007 kl. 20:18
Á eina rauðhærða dóttur og eina rauðhærða mömmu og þar að auki margar rauðhærðar frænkur.
Skil ekki hvað þessum lækni gekk til, ég hefði gefið honum tæknivillu eða jafnvel rekið hann út.
Rúnar Birgir Gíslason, 8.5.2007 kl. 06:26
Ég á frænku sem er í stjórnunarstöðu og litaði hár sitt dökkt "til þess að yrði tekið mark á henni"!
Skyldu þessar rauðhærðu vera með írsk gen aftan úr ættum??
Sigríður Gunnarsdóttir, 8.5.2007 kl. 12:47
Flestar konur sem ég þekki skipta svo reglulega um háralit að maður veit ekkert lengur um einhvern uppruna í þessum efnum... ;c)
Jón Þór Bjarnason, 10.5.2007 kl. 08:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.