14.4.2007 | 10:50
Að láta verkin tala
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það verður kosið til alþingis eftir tæpan mánuð. Frambjóðendur keppast við að selja sig og málefnin og allir hafa lausnina einu sönnu.
Vandi landsbyggðarinnar er mikið í umræðunni og frasar eins og störf án staðsetninar og uppbygging landsbyggðarinnar hljóma á öldum ljósvakans. Sjálf starfa ég í fyrirtæki sem annast hönnun og prentun og ég veit að það eru fleiri slík á landsbyggðinni. Þessi fyrirtæki eiga þó undir högg að sækja og því miður er það svo að landabyggðarfólk sækir þessa þjónustu oft á tíðum til Reykjavíkur.
Stóru flokkarnir eru allir með svokallað "miðstýrt kosningakerfi" kerfi sem sér um helstu útgáfumál, hönnun og útlit. Kerfi sem eyðir öllu sínu fjármagni á höfuðborgarsvæðinu. Baráttan um störf án staðsetninga og sú fullyrðing að hægt sé að vinna margvísleg störf um land allt gæti því hafist með því að flokkarnir sjálfir tækju þá ákvörðun að styðja við bakið á atvinnuvegum úti á landi með því að láta framleiða allt kosningaefni á auglýsinga- og prentstofum á landsbyggðinni. Ég er ekki frá því að það gæti kallast að láta verkin tala!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.